top of page
Writer's pictureGuðný Valborg Guðmundsdóttir

Hvað er unschooling?

Updated: Nov 16, 2020

Unschooling er tegund af heimakennslu sem hefur verið að færast í aukana síðustu ár. Unschooling er sjálfstýrt nám og ákveðin lífsspeki þar sem innri áhugahvöt leiðir mann áfram í lífinu. Hér að neðan er stutt umfjöllun um unschooling en ef áhuga er fyrir hendi er hægt að lesa ýtarlegri og fræðilegri umfjöllun um efnið hér.

Hvað er unschooling?

Hugtakið unschooling hefur ekki verið þýtt á íslensku en miðað við lýsingu á hugtakinu væri hægt að þýða það sem „afskólun“, „utanskólanám“ eða „utanskólun“. John Holt kom fyrstur fram með hugtakið á 8. áratugnum en hann starfaði sem kennari en gaf starfsferilinn upp á bátinn og gagnrýndi skyldunám harðlega.

“Learning is not the product of teaching. Learning is the product of the activity of learners.” ~ John Holt

Unschooling er sjálfstýrt nám sem byggir á innri áhugahvöt og er ákveðin nálgun á heimakennslu. Með sjálfstýrðu námi er barninu treyst fyrir eigin námi og hefur það fullt frelsi til þess að ákveða hvað það vill læra, m.ö.o. fær barnið frelsi til þess að gera það sem það langar til, þegar það vill og hlutverk foreldra er að aðstoða barnið við það. Unschooling er ekki einungis ákveðin stefna þegar kemur að menntun barna heldur er oft litið á það sem ákveðið lífsviðhorf. Þessi lífsviðhorf og gildi má á margan hátt tengja við tengslauppeldi (e. attachment parenting) sem fjallar um mikilvægi góðra og öruggra tilfinningatengsla umönnunaraðila við barn sitt. Samkvæmt kenningunni eru meiri líkur á að barn búi yfir innri áhugahvöt til þess að rannsaka og skoða heiminn þegar tengsl barns við foreldra eða umönnunaraðila eru sterk. Með því að leyfa barninu sjálfu að vega og meta hvernig og hvenær það vill kanna og skoða heiminn í kringum sig eru foreldrar að ýta undir getu þess til að þroska sjálfsöryggi sitt, sjálfsmynd og hæfni. Barnið velur þar með sjálft hvenær það vill draga sig í hlé og hvenær það vill finna fyrir tengslum við foreldra sína.

“We can think of ourselves not as teachers but as gardeners. A gardener does not grow flowers; he tries to give them what he thinks they need and they grow by themselves.” ~ John Holt

Með unschooling er ekki notast við neina námskrá, undirbúna kennslu eða skólabækur og litið á námsmat sem truflandi afl. Hlutverk foreldra er að gefa börnunum svigrúm til þess að ákveða sjálf hvað og hvenær þau vilja læra og bjóða upp á ótakmarkaðan aðgang að þekkingu og upplýsingum. Á sama tíma er það jafnframt hlutverk foreldra að vega og meta hvaða efni er við hæfi. Unschooling virðist vera eins og einstaklingsmiðað nám á að vera í augum foreldra, þar sem það er ekki einhver ein ákveðin leið til þess að læra heldur fær hvert og eitt barn að læra á sínum hraða og á því stigi sem því hentar. Skiptar skoðanir eru á hvað telst vera unschooling og hvað ekki. Sumir segja að unschooling geti vel verið notað innan skólakerfisins og hægt sé að byggja það á kennsluáætlunum og námskrám (til dæmis áfangar í fjarnámi) en grundvallaratriðið er að það sé gert með eigin vilja og af frumkvæði barnsins. Ýmsir skólar hafa prófað sig áfram með sjálfstýrt nám og má þar nefna Summerhill í Bretlandi og Sudbury í Bandaríkjunum.


Peter Gray er einn af helstu talsmönnum unschooling og var einn þeirra fyrstu sem hóf rannsóknir á efninu. Hingað til hefur hann rannsakað unschooling bæði frá sjónarhorni foreldra og barna. Í eigindlegri rannsókn Gray og Riley frá árinu 2013 voru opnir spurningalistar lagðir fyrir 232 fjölskyldur sem skilgreindu sig sem unschoolers. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvernig foreldrar skilgreindu unschooling, af hverju þeir völdu þessa leið og hvað þeir töldu vera helstu kosti og galla hugmyndafræðinnar. Að mati foreldra hafði unschooling jákvæð áhrif á námsáhuga barna og hafði í för með sér betra viðhorf til náms auk þess sem sjá mátti aukna vellíðan á meðal barnanna og fjölskyldnanna. Einnig sýndu niðurstöður fram á að unschooling gæfi fjölskyldunum kost á aukinni fjölskyldunánd, stöðugleika og frelsi. Foreldrar töldu börnin vera félagslyndari þar sem þau fengu tækifæri til að umgangast fólk á öllum aldri í staðinn fyrir að umgangast nær eingöngu nemendur á sama aldri eins og gengur og gerist í hefðbundnum skólum. Foreldrar nefndu að þeim þætti erfitt að takast á við utanaðkomandi þrýsting frá nærsamfélaginu, aðallega þá gagnrýni sem fylgir þessari óhefðbundnu nálgun á námi. Ástæður þess að foreldrar völdu að unschool-a börnin sín voru meðal annars vegna slæmrar reynslu barnanna af skólakerfinu. Þar nefndu foreldrar að skólakerfið væri of stíft og of mikil áhersla lögð á hlýðni og undirgefni. Foreldrar töldu að skólinn drægi úr náttúrulegum vilja barnanna til þess að læra og þar með væri traðkað á innri áhugahvöt þeirra. Einnig nefndu foreldrar að þeir hefðu ákveðið að taka börn sín úr skóla vegna þess að þeim liði ekki vel, fyndu fyrir kvíða eða höfðu verið lögð í einelti.



Innri áhugahvöt

Oft er talað um að skólinn sé mikilvægur liður í að undirbúa nemendur fyrir „lífið“ (sem oft er talið hefjast að skóla loknum) en með unschooling er í raun litið svo á að nám og kennsla takmarkast ekki við skólann og skólastofuna heldur fer nám fram hvar og hvenær sem er. Í raun er heimurinn allur kennslustofan og lífið sjálft námið. Með unschooling er verið að ýta undir það að nemendur fái tilfinningu fyrir því að öll ævin fer í það að læra.

"I do not teach anyone I only provide the environment in which they can learn." ~ Albert Einstein

Í Aðalnámskrá grunnskóla er svipaður vinkill tekinn á nám en þar stendur skýrt að „nám er ævilangt verkefni“. Markmið Aðalnámskrár eru skýr um að skólar eigi að veita einstaklingsmiðað nám meðal annars byggt á sjálfbærni, jafnrétti og lýðræði. Þrátt fyrir að skólar vilji leggja aukna áherslu á þessa þætti þá virðast breytingar gerast hægt. Rannsókn Sigrúnar Aðalbjarnardóttur og Evu Harðardóttur leiddi meðal annars í ljós að fyrirlestrar, þjálfunaræfingar og endursagnir eru enn algengasta kennsluformið í skólum og lítið er um opnar og uppbyggjandi umræður. Það virðist sem viljinn sé fyrir hendi en kennurum reynist erfitt að nota lýðræðislegar umræður í bekkjarstarfi meðal annars vegna fjölda nemenda og reynsluleysis nemenda af því að notfæra sér lýðræðislegar umræður.


Nám takmarkast ekki við skóla eða stofnanir heldur er lífið sjálft nám og skipar lífsreynslan þar veigamikinn sess í mannlegum þroska. Þetta rímar við hugmyndir Dewey um að læra í verki en hann telur að mikilvægt sé að nám örvi nemendur og hristi upp í huga þeirra. Aðalatriðið er ekki að börn geti þulið upp ákveðna vitneskju í ákveðnum greinum. Í raun er mergur málsins sá að börn þurfa fyrst og fremst að læra að hafa gaman af því að læra. Ef sá grundvöllur er ekki til staðar reynist erfitt að byggja ofan á það. Hluti af því er ábyrgðin sem er látin hvíla á nemendum sjálfum því án ábyrgðar er ekkert í húfi fyrir þau en í staðinn læra þau vegna þess að þau eiga að hlýða eða fylgja ákveðnum reglum en ekki vegna þess að þau læra fyrir sig sjálf. Á þennan hátt virðist unschooling fyrst og fremst einblína á að reyna að mynda heilstætt barn sem hefur trú á sjálfu sér og fái frelsi til þess að vaxa og dafna. Ef börn fá tækifæri til þess að læra að læra á náttúrulegan hátt og að læra að elska þá verður ekkert í vegi fyrir því að þau munu elska að læra.


Eftir því sem börn verða eldri minnkar frelsi þeirra til að fylgja eigin áhugahvöt. Í staðinn er sífellt meiri þrýstingur á einstaklinga að gera hluti sem þeir hafa ekki áhuga á. Þegar foreldrar eða kennarar reyna að ýta undir ákveðna hegðun hjá börnum er óvíst hvaða áhrif það getur haft í för með sér. Barnið getur fundið fyrir hvatningu og tekið þátt af sjálfsdáðum eða fundið fyrir mótþróa og átt á hættu að verða óvirkur þátttakandi sem finnur ekki fyrir persónulegri skuldbindinu gagnvart náminu. Allir hafa hvatir til að þroska með sér sína eigin sjálfsvitund á náttúrulegan og meðfæddan hátt. Með unschooling fá nemendur svigrúm til að stunda nám sem byggir á sjálfvöldum markmiðum sem þeir síðan reyna að ná með sjálfstæðum leiðum. Þar með er unschooling nám sem byggir á innri áhugahvöt og börn fá tækifæri til þess að læra á náttúrulegan og eðlislægan hátt þ.e. börn læra af því að þau langar til þess en ekki af því að þau þurfa þess.


Til dæmis gæti barn tekið ákveðið námsefni fyrir sem það hefur brennandi áhuga á og hættir ekki fyrr en það hefur náð að seðja þorsta sinn og einungis þá eru það tilbúnið að snúa sér að einhverju öðru. Skólakerfið hefur lítið svigrúm fyrir flæði og er nær öllu leyti byggt á ytri áhugahvöt þar sem notast er við umbunarkerfi eins og límmiða, verðlaun, einkunnir og hrós. Í staðinn fyrir að efla innri áhugahvöt barna með því að gefa þeim frjálsar hendur er reynt að ýta undir innri áhugahvöt með ytri áhrifavöldum. Þetta getur verið varasamt þar sem það getur valdið meiri skaða en gagn og með þessu móti tekur skólakerfið fram fyrir hendurnar á börnum með því að hunsa áhuga, gildi og væntingar þeirra. Gott dæmi er lestur barna. Ef barn byrjar skólagöngu sína með brennandi áhuga á lestri þá er innri áhugahvötin nú þegar til staðar. Hún er síðan bæld niður með verðlaunum eins og til dæmis límmiðum fyrir hvert skipti sem barnið les heima. Í staðinn fyrir að barnið haldi áfram að byggja ofan á innri áhugahvöt sína fyrir lestri byrjar það að tengja lestur við ákveðna umbun en ekki sanna ánægju. Þar með breytist tilgangurinn og færist yfir á ytri hvata.

“If we taught babies to talk as most skills are taught in school, they would memorize lists of sounds in a predetermined order and practice them alone in a closet.” ~ Linda Darling-Hammond

Deschooling

Þegar byrjað er að notast við unschooling fer oft góður tími í ákveðið ferli sem kallast deschooling þar sem lögð er áhersla á að „aflæra“ þau gildi og viðhorf sem börn og oft einnig foreldrar hafa lært í hinu hefðbundna skólakerfi. Þetta felst meðal annars í þeirri viðhorfsbreytingu að nám eigi að vera fullkomlega frjálst en ekki skorðað með námskrám og kennsluáætlunum. Á meðan á þessu tímabili stendur virðast börn oft ekki hafa áhuga á námi þar sem þau hafa verið föst í því hugsunarferli að nám sé eitthvað sem þau þurfa að gera en ekki eitthvað sem þau vilja gera. Með tímanum er það innri áhugahvöt barna sem leiðir til þess að börnin hefja nám að nýju, þá á sínum eigin forsendum.

"To trust children we must first learn to trust ourselves... and most of us were taught as children that we could not be trusted." ~ John Holt

Það erfiðasta við unschooling er í raun sú vinna sem þarf að fara fram innan frá og erfitt getur reynst að brjótast undan sínum eigin hugmyndum um hvað sé æskileg menntun. Í því felst oft að einstaklingar þurfa að aflæra það sem þeir telja sjálfa sig nú þegar vita. Oft er þetta á móti þeim menningarlegu viðmiðum, gildum og hefðum sem við höfum lært í því samfélagi við ölumst upp við, þ.e. að aflæra það sem við höfum lært af forfeðrum okkar, kennurum og menningu og í staðinn byggja upp nýja hugsun og ný viðhorf þar sem lögð er áhersla á samkennd og samvinnu. Í staðinn fyrir að kenna börnum góðar dyggðir með ýmsum ströngum reglum og fyrirmælum er í staðinn lögð áhersla á að vera góð fyrirmynd og sýna í verki hvað telst æskilegt.


Og hvað svo?


Vert er að velta því fyrir sér hvernig framtíð þessara einstaklinga er. Hvort hægt sé að fara í frekara nám á framhalds- eða háskólastigi, sérstaklega ef ekki er hægt að sýna fram á námsmat og námsferil sem fylgir fyrirfram ákveðnum stöðlum skólakerfisins.


Ýmsar rannsóknir hafa gefið til kynna að nemendum sem hafa verið í heimakennslu gengur alla jafna vel þegar kemur að menntun á hærra stigi. Þessar rannsóknir hafa samt sem áður ekki athugað hvernig unschoolers gengur (Cogan og Sureau, 2007; Galloway, 1995). Í rannsókn Gray og Riley frá árinu 2015 var unschooling frá sjónarhorni nemenda skoðuð og reynt að fá innsýn í þeirra reynslu af unschooling. Rannsakendur vildu fá að vita hvort og þá hvernig þátttakendur kæmust inn í frekara nám á háskólastigi og hvernig þeim gengi að komast út á vinnumarkaðinn. Í þessari rannsókn voru allir þátttakendur eldri en 18 ára og áttu það sameiginlegt að hafa verið unschool-uð að minnsta kosti síðustu tvö árin í menntaskóla (e. high school). Af 75 þátttakendum höfðu 83% lokið frekara námi eftir grunnskóla. Almennt sögðust þátttakendur ekki hafa átt erfitt með að komast inn í frekara nám. Til þess að komast inn í háskóla höfðu sumir lokið áföngum í fjarnámi, tekið samræmd próf eða nauðsynleg inntökupróf. Fyrir aðra nemendur var nóg að fara í viðtal og/eða skila kynningarmöppu (e. portfolio). Þeir þátttakendur sem höfðu verið kennt heima alla sína formlegu skólagöngu voru líklegri til að hefja háskólanám en þeir sem höfðu á einhverjum tímapunkti gengið í skóla. Rannsóknir á nemendum í Sudbury Valley skólanum í Bandaríkjunum (þar sem nemendur stýra námi sínu sjálfir) hafa sýnt fram á svipaðar niðurstöður. Nemendur sögðust standa í þeirri trú að tækifæri þeirra til þess að bera ábyrgð á sínu eigin námi hefði langvarandi jákvæð áhrif á menntun þeirra þar sem þeir höfðu gaman af því að læra og héldu áfram að taka ábyrgð á sínu eigin lífi.



En hvað með félagsfærni?

Þegar heimakennslu ber á góma koma oft fram áhyggjur af félagsfærni barna. Ýmsar rannsóknir hafa skoðað félags- og tilfinningafærni nemenda í heimakennslu. Þær rannsóknir benda til að ekki sé hægt að sjá að nemendur í heimakennslu sýni fram á lakari félagsfærni eða tilfinningalegt ójafnvægi en nemendur í hefðbundnum skólum. Unschoolers eiga oft í erfiðleikum með að finna aðrar fjölskyldur í sömu hugleiðingum en þar skipar tæknin oft veigamikinn sess í lífi þeirra þar sem fjölskyldur tengjast meðal annars í gegnum samfélagsmiðla, heimasíður, rithöfunda og fyrirlesara og fá þannig tækifæri til að sjá árangur og fá innblástur hjá öðrum fjölskyldum sem notast við unschooling.

“Do not train children in learning by force and harshness, but direct them to it by what amuses their minds, so that you may be better able to discover with accuracy the peculiar bent of the genius of each.” ~ Plato

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page