Samkvæmt 26. grein í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að „foreldrar skulu öðrum fremur ráða hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta“. Mannréttindasáttmáli Evrópu er innleiddur í íslensk lög og segir til um að hið opinbera skuli virða rétt foreldra og að menntun og fræðsla barna sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir foreldra þeirra. Samkvæmt lögum er heimakennsla leyfð á Íslandi en samt sem áður eru þar hömlur þar sem einungis foreldrar með kennsluréttindi hafa leyfi til þess að hafa börn sín í heimakennslu.
Heimakennslu hefur vaxið fiskur um hrygg á síðastliðnum árum, þá sérstaklega í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Ástralíu (Guterman og Neuman, 2018). Heimakennsla er einna vinsælust í Bandaríkjunum en þar er áætlað að um 1,8 milljónir nemenda hafi verið í heimakennslu árið 2012. Til samanburðar voru um 900.000 nemendur í heimakennslu árið 1999. Því má áætla að tæplega 4% af nemendum á skólaaldri í Bandaríkjunum sé kennt heima fyrir (Aurini og Davies, 2005; Kunzman og Gaither, 2013; Redford, Battle og Bielick, 2016). Heimakennsla á Íslandi er lögleg samkvæmt lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) en lítil umræða hefur verið um heimakennslu á Íslandi og fáir hafa notfært sér þetta tækifæri hingað til (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014).
Samkvæmt 3. gr. laga um grunnskóla (nr. 91/2008) geta foreldrar sótt um undanþágu barns frá skólaskyldu og fengið tímabundna heimild til þess að annast sjálf kennslu þess, annað hvort að fullu eða hluta. Í sömu reglugerð kemur fram að sækja þarf um þessa undanþágu frá sveitastjórn þess sveitafélags sem barnið hefur lögheimili.
Í 6. gr. í reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi (nr. 531/2009) segir að heimakennsla skuli „byggjast á lögum um grunnskóla um aðalnámskrá grunnskóla“. Sá sem ætlar að annast kennsluna þarf einnig að hafa leyfi frá menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari. Til þess að geta borið starfsheitið grunnskólakennari þarf sá aðili að hafa lokið meistaraprófi frá háskóla á fræðasviði sem viðurkennt er til kennslu á grunnskólastigi eða öðru jafngildu meistaraprófi sem ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi. Ef aðili hefur lokið meistararéttindum í iðngrein sem nýtist í kennslu á grunnskólastigi eða er með fullgilt lokapróf í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist í kennslu á grunnskólastigi þarf sá aðili þar að auki að hafa lokið 60 námseiningum í kennslu- og uppeldisfræði.
Nemendur í heimakennslu eru undanþegnir skólaskyldu en skólinn og sveitarfélagið eru samt sem áður skyldug til að sjá um eftirlit og reglulegt mat á námsárangri nemenda og nemendur skulu þreyta könnunarpróf (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014). Skólar og sveitarfélög hafa svigrúm og sjálfstæði til þess að skipuleggja nám í samræmi við þarfir hvers og eins nemanda og er meginstefnan sú að allir nemendur eigi að hafa kost á að stunda nám í sínum heimaskóla, án aðgreiningar (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).
Umsóknarferli
Foreldrar, eða forráðamenn, sem óska eftir heimild til heimakennslu sækja um slíkt til sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:
námskrá heimakennslu þar sem fram kemur lýsing á almennri stefnu, starfsháttum og markmiðum heimakennslunnar, ásamt áætlun um með hvaða hætti nemandi uppfylli markmið aðalnámskrár.
áætlun um hvers konar félags- og tómstundastarf standi barni til boða.
nauðsynleg gögn um menntun, starfsferil og kennsluréttindi þeirra sem annast eiga heimakennsluna.
upplýsingar um aðstæður, húsakost og annan aðbúnað vegna kennslunnar.
Hægt er að lesa reglugerðina hér þar sem má finna ítarlegri upplýsingar um umsóknarferlið:
Eftirlit
Heimakennslufulltrúi skilar skýrslu um framkvæmd kennslunnar minnst tvisvar á skólaári, í janúar og júní, til skólastjóra þjónustuskóla. Skólastjóri skólans upplýsir skólanefnd um framkvæmd heimakennslunnar.
Áður en heimakennsla hefst fer þjónustuskóli yfir fyrirliggjandi vitnisburð um nám og stöðu nemanda (ef mögulegt er). Ef nemandinn hefur ekki áður verið í grunnskóla hér á landi eða er að byrja í grunnskóla fer fram mat á stöðu nemanda áður en heimakennsla er heimiluð.
Foreldrar eða forráðamenn skulu í samráði við skólann gera reglulega grein fyrir námsmati og öðru því sem varðar kennsluna og skipulag hennar.
Skólastjóri þjónustuskóla getur ákveðið að nemendur í heimakennslu séu prófaðir í lykilnámsgreinum grunnskóla og lagt fyrir stöðukannarnir í einstökum námsgreinum.
Endurskoðun á núverandi reglugerð
Verið er að endurskoða núverandi reglugerð. Ef henni verður breytt verður stærsta breytingin sú að opnað er á að hægt er að sækja um heimild til heimakennslu á grunnskólastigi fyrir foreldra sem ekki hafa kennsluréttindi.
Helstu breytingar frá reglugerðinni frá 2009 (ef hún verður samþykkt):
1. Áfram er sett skilyrði um að sá sem annast heimakennsluna hafi leyfi ráðherra til að nota starfsheitið kennari, en bætt er við sambærilegri undanþáguheimild og sett er í lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Menntamálastofnun gefi út slíka heimild að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara.
2. Nokkrar breytingar eru gerðar um gögn sem þurfa að fylgja með umsókninni, annars vegar skýrari ákvæði um rökstuðning fyrir beiðni um heimakennslu en hins vegar almennari skilyrði um starfs- og kennsluáætlun.
3. Nýmæli er að gert er ráð fyrir að skólastjóri þjónustuskóla beri ábyrgð á því að námskrá heimakennslu sé unnin í samráði við foreldra en í eldri reglugerð var ábyrgðin alfarið í höndum foreldra.
4. Bætt er við ákvæði um í leyfi til heimakennslu sé kveðið á um aðgang að frístundaheimili í samræmi við nýtt ákvæði um frístundaheimili fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla sem varð að lögum 2016 með breytingu á grunnskólalögum.
5. Sett inn ákvæði að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá skuli liggja fyrir samþykki beggja foreldra fyrir heimakennslu barnsins.
6. Öll samskipti við stjórnvöld verði við Menntamálastofnun en þegar reglugerðin var samin var sú stofnun ekki til. Eðlilegt er að stofnunin annist slíkt.
7. Sett er ákvæði um að umsókn til sveitarstjórnar vegna heimildar fyrir heimakennslu berist eigi síðar en 1. febrúar ár hvert vegna komandi skólaárs. Í gildandi reglugerð eru engin ákvæði um umsóknarfrest.
8. Bætt er við ákvæði um að foreldrar skulu eiga þess kost að tjá sig um efni greinargerðar um aðstæður á heimilinu vegna fyrirhugaðrar heimakennslu.
Hér er hægt að skoða endurskoðaða reglugerð um heimakennslu a grunnskólastigi.
Heimildir
Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013/2013.
Aurini, J. og Davies, S. (2005). Choice without markets: Homeschooling in the context of private education. British Journal of Sociology of Education, 26(4), 461–474.
Guterman, O. og Neuman, A. (2018). Personality, socio-economic status and education: Factors that contribute to the degree of structure in homeschooling. Social Psychology of Education, 21(1), 75–90.
Kunzman, R. og Gaither, M. (2013). Homeschooling: A comprehensive survey of the research. Other Education: The Journal of Educational Alternatives, 2(1), 4–59.
Lög um grunnskóla nr. 91/2008.
Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.
Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2014). Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum skólaárin 2007-2008, 2008-2009 og 2009-2010.
Redford, J., Battle, D. og Bielick, S. (2016). Homeschooling in the United States: 2012.
ความคิดเห็น